Ósjálfrátt. Eftir Auður Jónsdóttir
Viltu ekki fara frá þessum manni? Setningin skellur á hlustunum; hún heyrir hvað amma segir en hverju á hún að svara? Ef þér er alveg fyrirmunað að hugsa um sjálfa þig, viltu þá gera það fyrir mig að hugsa um skáldsöguna þína?

Dag einn vaknar Eyja í sjávarþorpi vestur á landi, nýgift drykkfelldum karli sem er tuttugu árum eldri en hún. Þau búa á rauðu svæði, örfáum skrefum frá rústunum þar sem snjóflóð féll skömmu áður og hreif með sér nítján mannslíf.

Röskar konur taka höndum saman til að koma ungu konunni frá eiginmanninum og í annað land, í samfloti með skíðadrottningu sem á ekki til orðið uppgjöf í orðaforða sínum. Löngu síðar skrifar Eyja sig aftur á sama stað til að reyna að skilja fortíðina, skáldskapinn í lífinu, fjölskyldu sína og þýðingu þess að vera skáldkona.

En fyrst og fremst allar sögurnar sem lífið gefur okkur og sem við megum ekki láta gleymast.

Auður Jónsdóttir er meðal fremstu höfunda sem nú skrifa á íslensku. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Fólkið í kjallaranum en sú bók var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Alls hafa fjórar bækur Auðar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Um Fólkið í kjallaranum:

*****

„Auður Jónsdóttir skrifar um sekt og ábyrgð, svik og kröfur, án þess að blikna. Þannig skipar hún sér hiklaust fremst í flokk glæsilegra norrænna höfunda sem þora að opna dyrnar ofan í kjallara og stara óttalausir inn í vonda samvisku, alla hennar króka og kima. Þetta er ein af þessum skáldsögum sem sest þungt í líkamann.“
Jyllandsposten

„Makalaus bók, við höfum eignast dúndurhöfund …“
Páll Baldvin Baldvinsson / STÖÐ 2

Höfundur: Auður Jónsdóttir
381 bls.
Mál og menning
Útgáfuár: 2012

Auður Jónsdóttir
Auður Jónsdóttir er fædd 30. mars 1973. Hún starfar sem rithöfundur og sjálfstæður blaðamaður og hefur skrifað greinar og viðtöl fyrir ýmis tímarit og dagblöð. Smásaga hennar „Gifting“ birtist í tímaritinu Andblæ haustið 1997.

Auður hefur skrifað fimm skáldsögur: Stjórnlaus lukka (1998), Annað líf (2000), Fólkið í kjallaranum (2004), Tryggðarpantur (2006) og Vetrarsól (2008), og hún hefur einnig sent frá sér tvær barnabækur fyrir almennan markað, Algjört frelsi (2001) sem hún skrifaði í samvinnu við Þórarin Leifsson myndskreyti, og Skrýtnastur er maður sjálfur (2002) sem er ævisaga Halldórs Laxness fyrir börn. Sú bók hlaut viðurkenningu Upplýsingar, félags íslenskra bókasafnsfræðinga sem vel unnið fræðirit fyrir börn og fyrir hana var Auður tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Hún var jafnframt kosin barnabók ársins í kosningu íslenskra bóksala en fleiri bækur Auðar hafa hreppt sæti á listum þeirra í gegnum árin.

Auður hefur þrisvar verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki skáldverka, fyrir Stjórnlausa lukku, Fólkið í kjallaranum og Tryggðarpant, en verðlaunin hlaut hún 2004 fyrir Fólkið í kjallaranum. Fyrir þá bók var hún einnig tilnefnd af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2006 og bókin hlaut afar góðar viðtökur í Danmörku þegar hún kom út þar haustið 2006. Á þessu ári verður Tryggðarpantur gefinn út í Danmörku og Svíþjóð en forlagsrisinn Random House festi nýverið kaup á Vetrarsól sem á að gefa út í Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Auk þess hefur Auður skrifað tvær barnabækur fyrir börn með lestrarerfiðleika, útgefandi Námsgagnastofnun.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga