Endurnýting er smart
Vestast í vesturbænum í Kópavogi er Kötukot - blóma- og vinkonuhús. Kot sem hefur mikla sérstöðu að mörgu leyti, ekki síst þar sem gripirnir sem eru til sölu eru hannaðir og framleiddir af handverkskonum sem eru hreinir listamenn á sínu sviði. Þar er glervara og prjónles, kort og kerti, fatnaður og skartgripir. Og núna á aðventunni, algerlega ómótstæðilegir aðventukransar.
Kötukot er ekki aðeins rekið sem verslun, heldur líka vinnustofa fyrir konur. Inn af versluninni er vinnustofa sem Kata í Kötukoti leigir út fyrir saumaklúbba, vinkvenna-, frænkna- og systrahópa sem vilja koma saman til að vinna að einhverjum verkefnum.
„Núna eru hér oft vinkvennahópar sem eru að búa til alls konar jólaskraut. Ég held líka námskeið hérna þar sem ég kenni konum að búa til aðventukransa eða gera upp gömlu kransana sína. Hér geta þær fengið trjágreinar, köngla, borða og allt sem til þarf. Og ég er alveg ófeimin við þá stefnu mína að hér séu bara konur að vinna og sýna hönnun sína. Allt sem fæst hér reynum við að búa til sjálfar. Ég bý sjálf til alla glervöruna og alla kransana sem eru til sölu. Ég fer upp í Heiðmörk til að safna mér efni, sem og út í garðinn hjá mér. Ég bý líka til kertin sjálf.  Þetta gengur allt dálítið mikið út á endurnýtingu hjá okkur. Við látum hugmyndirnar flæða og búum gjarnan til úr því sem við eigum. Eigum alltaf dálítið til af blómum og flettum þau inn í það sem við erum að gera. Þetta eru alveg frábærar handverkskonur og það vantaði hreinlega samastað fyrir konur sem eru listamenn af guðs náð en eiga þess ekki kost að koma hönnun sinni á framfæri. Það má segja að Kötukot sé miðstöð fyrir þessar konur.“

Þegar Kata er spurð hvers vegna hún leggi svona mikið upp úr endurnýtingu, segist hún alltaf miða við hvað hún væri sjálf til í að borga fyrir hlutina. „Ég væri aldrei til í að borga 15.000 krónur fyrir  aðventukrans og það er furðulegt að þeir skuli vera eins dýrir og raun ber vitni. Með því að endurnýta hluti sem við eigum, setja þá í nýtt samhengi, mála þá og úða á þá málniningu, sáldra á þá silfri eða gulli, getum við komist upp með fallega gripi sem eru einstakir. Hér er til dæmis einn hönnuður, sem er að sauma gullfalleg barnaföt upp úr gömlum fötum. Það er til fullt af fólki sem á engan pening og býr yfir ótal hugmyndum en hefur ekki aðstöðu til að hrinda þeim í framkvæmd. Og það er miklu sniðugra að endurnýta hlutina heldur en að fleygja þeim. Það er kreppa og það er smart að endurnýta.“
Auk fjölbreyttrar flóru af fallegu handverki er Kata með blóm og auk þess með servíettur, sápur og híbýla-ilmi sem hún flytur inn frá Frakklandi. Það er enginn svikinn af því að skreppa á Kársnesbraut 114 og líta dýrðina augum.

www.facebook.com/kotukot

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga