Líflega jólaþorpið í HafnafirðiHafnfirðingar opna sitt bráðskemmtilega jólaþorp um næstu helgi. Að vanda verður þar sungið og dansað og  fjölbreytnin í fyrirrúmi þegar kemur að vöruframboði.

Jólaþorpið í Hafnarfirði verður opnað í fimmta sinn eftir fáeina daga, eða 24. nóvember og verður opið allar helgar fram að jólum. Skrifstofa menningar- og ferðamála sér um skipulagningu Jólaþorpsins og er Ásbjörg Una Björnsdóttir þar verkefnisstjóri. Hún segir hugmyndina að þessari skemmtilegu hefði koma frá Þýskalandi. Markmiðið hafi í upphafi verið að styðja við verslunina í bænum, einkum verslunarmiðstöðina Fjörð og verslanir við Strandgötuna.
„Við höfum alltaf verið í góðri samvinnu við Fjörð og verðum, meðal annars, með beina útsendingu þaðan 1. Desember á Rás 2. Þá verða ýmsar uppákomur í Firði, til dæmis skemmtiatriði frá okkur, auk þess sem spjallað verður við gesti og gangandi. Inn á milli verður spiluð tónlist. Þessi beina útsending er í höndum Felix Bergssonar og Guðrúnar Gunnarsdóttur. Við vorum með slíka útsendingu í fyrra og hún mæltist mjög vel fyrir.“

Jólaböll og framlög leikskólanna.

„Jólaþorpið verður opið alla laugardaga og sunnudaga frá klukkan 12.00 til 18.00, nema á Þorláksmessu. Þá verður opið frá 12.00 til 22.00 – og þá verður glatt á hjalla. Í tilefni af því að jólin verða alveg að bresta á, verður boðið upp á jólaball fyrir alla með Guðrúnu Gunnarsdóttur og Friðriki Ómari frá klukkan 20.00 til 21.30. Á sunnudögum verða hins vegar jólaböll fyrir yngstu gestina okkar í umsjá Gunnars Helgasonar og Felix Bergssonar. Þá verður dansað í kringum jólatréið sem kemur frá vinabæ Hafnarfjarðar, Frederiksberg, og boðið er upp á jóladagskrá.“
Jólaþorpið samanstendur af tuttugu jólahúsum sem eru með ýmsan varning til sölu. „Hafnarfjarðarbær á þessi hús,“ segir Ásbjörg, „og þau eru alltaf sett upp á besta stað í bænum  vikuna sem þorpið er opnað. Daginn fyrir opnun koma börn úr leikskólum Hafnarfjarðar og skreyta þorpið með skrauti sem þau hafa búið til sjálf og þá býður Lúðvík bæjarstjóri þeim upp á kakó og kleinur. Fyrsta opnunardaginn kveikjum við líka á jólatréinu okkar.”

Bakkelsi og englar

Þótt upphaflega hugmyndin hafi verið að reisa jólaþorp til að styðja við verslunina í bænum, þýðir það þó ekki að verslanirnar flytji í þorpið. Þær verða áfram á sínum stað við Strandgötuna og í Firði. Jólaþorpið fyllist hins vegar af handverksfólki, einstaklingum og hópum, sem er að selja sín eigin verk og þar kennir margra áhugaverðra grasa. Sumir hafa eitt löngum stundum í föndurvinnu til að fjármagna félagsstörf, eins og kvennadeild Hauka og fimleikafélagið Björk, eða til að fjármagna starfsemi sína, til dæmis Góðgerðarfélög eins og Bergmál sem verður í einu húsinu - en sá félagsskapur er núna að safna fjármagni fyrir byggingu hvíldarbústaðar fyrir krabbameinssjúka. Karmelíta systur- nar úr klaustrinu í Hafnarfirði taka auðvitað þátt í jólamarkaðinum - en kertin þeirra hafa notið gríðarlegra vinsælda að sögn Ásbjargar

”Ég þori að fullyrða að Jólaþorpið er einn fjölbreyttasti markaður landsins,” segir hún. “Það er boðið upp á ýmsa textíl- og glervöru, skartgripi og annað handverk. Á einu borði er boðið upp á brenndar möndlur og svo verður hér belgísk kona sem býður upp á eigið handgert belgískt konfekt og kakó. Síðan verður hér fólk sem merkir föt og handklæði og annar hópur sem skrautritar á kerti - og hingað kemur kona sem sér engla fólks og teiknar þá. Hér verður líka í boði alls konar bakkelsi og góðgæti.”

Hvergi tómur bás
Þegar Ásbjörg er spurð hvort aðeins sé í boð handverk frá áhugamönnum, segir hú svo ekki vera. “Það er öll flóran í gangi. Hér verður nokkuð stór hópur af íslenskum hönnuðum og handverksfólki, bæði textíl- leir- og glerlistamönnum. Bæði þekktir eldri hönnuðir og listamenn, sem og þeir yngri sem sjá þarna tækifæri til að koma sér á framfæri.” Og  auðvitað er búið að fylla öll plássin - því, hver vill ekki koma sínum varningi að í svona vinsælu jólaþorpi. “Það er allt orðið fullt hjá okkur,” segir Ásbjörg, “en það er ekkert nýtt. 
Ég held að það hafi aldrei komið fyrir að hér hafi verið tómur bás.” Þegar hún er spurð hvaðan húsin í þorpinu koma, segir hún þau hafa verið keypt frá Þýskalandi, því hér hafi ekki fram að þessu verið til svona markaðshefð á Íslandi. “En þar sem þetta verður stöðugt vinsælla með hverju árinu sem líður, erum við farin að átta okkur á því að líklega þurfum við að bæta við húsum á næstu árum. Þau látum við líklega smíða hérlendis.”

Kórar og leikhópar
Fyrir utan jólaböll og skemmtidagskrár Felix og Gunna, verða ótal uppákomur í Jólaþorpinu í ár. “Við virkjum alla sem við mögulega getum hér í bæjarfélaginu,” segir Ásbjörg, “til dæmis hafnfirsku kórana, félagsmiðstöðvarnar, leikfélögin í Hafnarfirði og lúðrasveitirnar. Capri tríóið, sem er söngtríó eldri borgara tekur þátt í Jólaþorpinu, sem og Jaðarleikhúsið, sem ætlar að vera með eitthvert ævintýralegt atriði. Í fyrra voru þau með atriði sem þau kölluðu “Hvernig komast jólasveinarnir inn í blokkaríbúðir.” Þetta var mjög flott atriði, þar sem leikhúsið fékk með sér sigmenn með siggræjur - virkilega flinkir krakkar. Þetta atriði vakti mikla ahygli og ég vona að við fáu svona spennandi uppákomu frá þeim aftur.” Aðspurð hver reynslan hefur verið af Jólaþorpinu fyrstu fjögur árin, segir Ásbjörg að Gallup hafi gert könnun fyrir bæjarfélagið árið 2004. “Fólk var spurt hvort það kannaðist við Jólaþorpið og hvort það hefði komið þangað. Það kom í ljós að flestir aðspurðra vissu um þorpið og viðbrögðin voru mjög jákvæð. Tilganginum er því náð - og um að gera að halda ótrauð áfram.“

Myndbönd


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga