Blótgælur. Eftir Kristín Svava Tómasdóttir
Kristín Svava Tómasdóttir (f. 1985) er ljóðskáld í Reykjavík. Blótgælur er hennar fyrsta bók.

Skítt með það, förum heim til mín

ræddu við mig heimsmálin ástin mín
kreistu hönd mína um kjarnorkumálin
spenntu upphandleggsvöðvana yfir fjarlægum stríðsátökum
bíttu í vörina íhugull, gáfur eru svo sexí
komdu með mér á mótmælin á morgun
þó að mér sé í laumi orðið sama
hvað stendur á skiltinu svo lengi sem þú heldur á því
núorðið hrópa ég herská slagorð af trylltum fögnuði
(það er ómótstæðilegt hvað þú berð mikla umhyggju fyrir
ókunnugum elskendum og heiðagæsum)
en ég er ekki hugsjónamanneskja
ástin er grimm og ég er eigingjörn
þegar ég bít mig fasta við brjóst þitt
ástin er samkennd með einum manni
skeytingarleysi um örlög annarra
látum aðra elskendur veina og deyja
meðan ég stend hér með skiltið
og öskra mig hása af hamingju

„það er eitthvað hrátt og blautt of ofboðslegt í tíðarandanum, ef markamá þessi ljóð, ofurspennt og yfirkeyrt, einhver menning á mörkumuppreisnar sem á sér þó ekki skýran andstæðing og beinist ekki síst inná við; en líka eitthvað ofurlítið furðulegt og fallegt." Ástráður Eysteinsson. mbl
 
lt á bíla
Um Blótgælur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

„Með nauðgunarseyðing í klofinu“ (5) tekur ljóðmælandinn á móti lesandanum í Blótgælum, fyrstu bók Kristínar Svövu Tómasdóttur. Leiðin liggur víða, en þó er óhætt að fullyrða að einkum er dvalið við hina margrómuðu og alræmdu skemmtanamenningu Reykjavíkur, og þá ekki síst að nóttu til eða morguninn eftir. Allir fá þar eitthvað fallegt, í það minnsta eitthvað fyrir sinn snúð – líka þeir sem telja „menningu“ ekki vera rétta orðið í þessu samhengi. Strax á fyrstu síðu bókarinnar heldur ælan innreið sína og gerir síðan víðreist um „klístraða bari“ (9) og grenjar þar á „meira stuð meira fokking stuð“ (32) – en allt er þetta þó ekki ófyrirsynju því uppskeran er sú að „þynnkuskitan [er] full af ljóðum“ (15).

Bókinni hefur verið óspart hampað af álitsgjöfum og sérfræðingum fjölmiðla nú fyrir jólin, að ógleymdum bóksölum. Ekki verður agnúast út í það; hér kveður við hressilegan tón sem hefur ef til vill þann stærsta kost að lofa góðu, lofa meiru. Sýn skáldsins á veruleikann sver sig mjög í ætt við ungskáld allra tíma: ég hef séð eitt og annað, ég hef sökkt mér í nóttina, ég hef reynt margt á eigin skinni og rekið mig á – og dregið mínar ályktanir sem hver og einn þarf að draga en eru þó kannski algildar: „jólasveinninn [er] ekki til og þú ekki almáttug“ (22).

Í ljóðinu „Skítt með það, förum heim til mín“ (8) tekst Kristín Svava á við mótsagnir ástarinnar – sem hljótast af því hvernig hún beinist ýmist að hinu almenna eða hinu einstaka. „Því meira sem ég hef hatað einstaklinga, því heitari hefur ást mín orðið á mannkyninu í heild,“ segir beiski hugsjónamaðurinn Ívan Karamazov – og hvernig er raunar hægt að elska náungann þegar það rennur upp fyrir okkur, þegar (einum of) vel er að gáð, að hann er viðbjóðslegur á einhvern óumræðilegan hátt? Kristín Svava snýr upp á þessa togstreitu: áhugi á heimsmálum, heiðagæsum og hugsjónum verður per se að girndarefni – „gáfur eru svo sexí“ enda er ástin, sú ást sem breytir einstaklingnum í sinnulausa skepnu sem hefur það eitt að markmiði að tímga sig og viðhalda þannig mannkyninu (hvort sem það er skynsamleg ætlun hans eða ekki), í eðli sínu köld og skeytingarlaus: „ástin er grimm og ég er eigingjörn / þegar ég bít mig fasta við brjóst þitt / ástin er samkennd með einum manni / skeytingarleysi um örlög annarra“.

Og hvað er til ráða í samfélagi þar sem hugsjónir verða umsvifalaust að lífsstíl og markaðsvöru? Ljóðið „Dýrin í Hálsaskógi“ (27-28) dregur upp mynd, sem nú orðið má heita gamalkunn, af krökkum með lopahúfur sem hafa „andstyggð á ofstæki og sársauka“ og rækta „umburðarlyndi gagnvart öðrum menningarheimum / (nema Ameríkönum og starfsmönnum í þungaiðnaði)“. Þau hlusta á þögnina, en einhvers staðar kemur þeim rödd sem segir „elskan vertu þú sjálfur / nema þú sért ekkert spes vertu þá einhver annar“. Og þar við situr, milli þessara póla myndar straumurinn sína hringrás.

Á þennan hátt hittir Kristín Svava víða naglann á höfuðið svo lesandinn hálfpartinn emjar undan. Íslendingar á Mallorca, rað-barnsfeður, eiginkonur stórskálda og fleiri fá sínar pillur – og Halldór Laxness er færður upp á 21. öldina. Staulast er yfir Tjarnarbrúna að næturlagi með flösku í hendi og gripið til eplasnafsflöskunnar morguninn eftir – og horft „stjörf framan í strákinn sem þú svafst hjá eftir að þú hefur ælt yfir bílinn hans“ (35).

Blótgælurer uppvaxtarbók; fyrsta verk höfundar á leið annað – hvert? Sjálfsagt út fyrir landsteinana og vonandi upp úr forarvilpu knæpanna og hins stefnulausa hóglífis. Nóg er sogið af blóði, skrímslið fær sitt – og ráðið hlýtur að vera að beina kraftinum út á við, og þá er ekki átt við útrás stuttbuxnaherdeildanna heldur eitthvað annað... „nú er stund hinnar staðföstu baráttu runnin upp“ (6). Í lok bókarinnar er ljóðmælandinn í þann veginn að hefja sig til flugs – „er [...] ekki kominn tími til þess, stelpurófa“ (35)? – „ekkert er fram undan nema ljósin meðfram flugbrautinni“ og „þau eru öll einhvers staðar langt fyrir aftan þig“ (35). Allt eins og bráðum komi þota. „Er þetta hann?“ (10).

Fáum meira.

Björn Þorsteinsson, kistan.is

Bókin er 40 síður.
Kápa: Ásta S. Guðbjartsdóttir
Útgefandi: Bjartur.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga